Hverjir eru kostirnir við að vera í stéttarfélagi?
Verkalýðshreyfingin er stærsta fjöldahreyfing á Íslandi
Kjarasamningar
Stéttarfélög gera kjarasamninga um lágmarkskjör fyrir allt vinnandi fólk á íslenskum vinnumarkaði.
Gerð kjarasamninga er meginhlutverk stéttarfélaga
Upplýsingar, launakröfur og lögfræðiaðstoð
Stéttarfélög verja réttindin þín, gefa ráð, hjálpa þér að innheimta ógreidd laun og bjóða upp á lögfræðiþjónustu í launadeilum ef þörf er á.
Ekki hika við að tala við stéttarfélagið þitt ef þig vantar aðstoð. Þau byrja ekki að vinna fyrir þína hönd nema með þínu leyfi.
Sjúkradagpeningar, orlofshús, endurgreiðslur
Stéttarfélög halda líka úti eftirfarandi sjóðum sem veita alls kyns styrki og bætur sem munað getur um.
Sjúkrasjóður
Sjóðurinn greiðir sjúkradagpeninga til þeirra sem eru ekki vinnufærir vegna veikinda og slysa, svo lengi sem þeir uppfylla lágmarksskilyrði um iðgjaldagreiðslur. Sjóðurinn endurgreiðir líka hluta kostnaðar vegna ýmissa heilsutengdra útgjalda, krabbameinsskoðunar og svo framvegis. Í mörgum tilfellum styrkja sjúkrasjóðir líka tómstundir á borð við líkamsrækt og sund.
Orlofssjóður
Félagsfólk getur sótt um leigu á orlofshúsum stéttarfélagsins síns. Sum félög bjóða líka upp á afslætti hjá flugfélögum og ferðaskrifstofum, sem og endurgreiðslu vegna gistingar á Íslandi, veiðikort og tjaldkort.
Fræðsla
Ef launafólk vill mennta sig getur það sótt um starfsmenntastyrki hjá stéttarfélaginu. Hafðu samband við þitt stéttarfélag til að fá upplýsingar um styrki í boði. Flest stéttarfélög veita líka styrki til íslenskunáms eftir einn mánuð af iðgjaldagreiðslum.
Endurhæfingarsjóður
Ef þú býrð við skerta starfsgetu vegna slyss eða veikinda ættirðu að hafa samband við VIRK.
Í hvaða stéttarfélag á ég að greiða?
Það fer eftir starfinu sem þú vinnur og staðsetningu vinnustaðarins. Það er mikilvægt að vera í réttu félagi, annars geta réttindi þín verið skert. Til að fá frekari upplýsingar um hvaða félagi þú ættir að vera í geturðu talað við trúnaðarmanninn á vinnustaðnum þínum eða skoðað síðuna Í hvaða stéttarfélagi er ég?