Launaseðillinn

Þú átt rétt á að fá launaseðil þegar þér eru greidd laun.

Á launaseðli eiga að vera tilgreindir allir launaliðir sem og allir frádráttarliðir, svo sem tekjuskattur, lífeyrissjóðsgreiðslur, iðgjald stéttarfélags og svo framvegis.

Atvinnurekandinn ber ábyrgð á að skila þessum greiðslum á rétta staði. Eftir standa svo launin sem þú færð inn á bankareikninginn þinn. Á launaseðli ætti að koma fram í hvaða stéttarfélagi þú ert.

Þú finnur yfirleitt launaseðilinn þinn
í rafrænum skjölum á netbankanum þínum

Laun
Launaseðillinn á að sýna alla launaliði sem þér er greitt samkvæmt, svo sem dagvinnustundir, yfirvinnustundir, desemberuppbót og svo framvegis.

Frádráttarliðir
Launaseðillinn á líka að taka fram allan frádrátt atvinnurekanda frá laununum, svo sem vegna skatta, lífeyrissjóðsgreiðslna, iðgjalda stéttarfélags og svo framvegis. Atvinnurekandinn er ábyrgur fyrir að skila þessum greiðslum á réttan stað. Afgangurinn er það sem greitt er á bankareikninginn þinn.

Skattar
Atvinnurekendur eru skyldugir til að halda eftir sköttum af mánaðarlegum launum starfsfólks og skila þeim til skattsins. Allir eiga rétt á persónuafslætti. Þú þarft að tilkynna atvinnurekanda þínum að þú viljir nota persónuafsláttinn, annars verður allur skatturinn dreginn af laununum þínum.

Lífeyrissjóðsgjöld
Allt vinnandi fólk milli 16 og 70 ára aldurs þarf lögum samkvæmt að greiða í lífeyrissjóð. Lífeyrissjóðir greiða ellilífeyri, örorkulífeyri og lífeyri til eftirlifandi maka og/eða barna.

Þú getur líka valið að greiða viðbótarlífeyrissparnað sem er einstaklingsbundinn og valkvæður. Þá þarf atvinnurekandinn að greiða 2% af launum þínum í sérstakan sjóð.

Iðgjöld stéttarfélaga
Launaseðillinn á að sýna í hvaða stéttarfélagi þú ert.

Ef þú ert ekki viss um að hafa fengið greidd rétt laun skaltu hafa samband við stéttarfélagið og fá þau til að fara yfir launaseðilinn með þér