Réttindi á vinnumarkaði
Það er mikilvægt að þekkja og passa upp á réttindi sín. Hér fyrir neðan má finna helstu upplýsingar um réttindi á vinnumarkaði. Verkalýðshreyfingin hefur barist fyrir þessum réttindum í rúm 100 ár - stöndum vörð um þau saman.
Yfirlit
Ekki hika við að hafa samband við stéttarfélagið þitt ef þú ert í vafa eða hefur spurningar um réttindi þín
Laun og starfskjör
Um laun og önnur starfskjör er fyrst og fremst fjallað í kjarasamningum milli stéttarfélaga og samtaka atvinnurekenda. Í kjarasamningum eru sett lágmarksréttindi alls launafólks. Það er mikilvægt að vita hvaða kjarasamningur gildir um starfið sitt því samningurinn inniheldur upplýsingar um laun, réttindi og skyldur sem eiga við um starfið. Kjarasamningar eru yfirleitt aðgengilegir á vefsíðum stéttarfélaganna.
Það er grundvallaratriði að laun og önnur starskjör sem þú semur um við atvinnurekanda mega ekki vera lakari en kveðið er á um í kjarasamningi. Það er aftur á móti heimilt að semja um hærri laun og betri starfskjör en þau sem kveðið er á um í kjarasamningi.
Laun og önnur kjör eiga að liggja fyrir áður en þú hefur störf því erfiðara er að semja um slíkt þegar þú hefur hafið störf.
Prufuvaktir eiga alltaf að vera launaðar
Erlendir ríkisborgarar sem starfa á Íslandi eiga að fá laun í samræmi við menntun og starfsreynslu. Menntun og hæfni þarf að fá vottun um hjá viðeigandi opinberum aðilum.
Skoðaðu launaseðilinn þinn
Athugaðu alltaf hvort launaseðillinn þinn stemmi
Jafnaðarkaup
Jafnt tímakaup fyrir dagvinnu og yfirvinnu er ekki til sem taxti. Ef þú vinnur fyrir þannig laun er hætt við að þú fáir minna greitt en ef þú værir að fá dagvinnutaxta fyrir dagvinnu og yfirvinnukaup fyrir yfirvinnu.
Vinnutími
Í íslenskum lögum eru settar almennar reglur um vinnutíma. Full vinna er að hámarki fimm átta tíma vinnudagar í viku, 40 tímar alls.
Kjarasamningar útfæra skipulag vinnutímans í smáatriðum. Alltaf ætti að greiða yfirvinnukaup fyrir yfirvinnu.
Menntun og hæfni
Sum störf krefjast menntunar, sérstakra leyfa eða vottanna, svo sem sérstaks bílprófs. Oft er hægt að fá viðurkenningu á menntun erlendis frá og í sumum tilfellum er hægt að fá metna reynslu í starfsgrein.
Hvíld og frí
Hvíldartími og frídagar
Vinnandi fólk á rétt á 11 tíma samfelldri hvíld á hverjum sólarhring og minnst einum hvíldardegi á viku. Undantekningartilvik geta heimilað styttri hvíld.
Matar- og kaffitímar
Matar- og kaffitímar eru útfærðir á mismunandi hátt eftir vinnustöðum. Yfirleitt eru matartímar 30-60 mínútur. Þú ættir að fá kaffitíma líka, almennt 5 mínútur fyrir hvern unninn tíma. Mundu að þú átt rétt á matar- og kaffitímum.
Orlof
Orlofsréttur er tvíþættur; annars vegar rétturinn til frítöku og hins vegar rétturinn til að fá greidd laun í orlofi. Allt vinnandi fólk á rétt á sumarfríi eða orlofi.
Orlof er reiknað sem hlutfall af launum, almennt 10,17%. Það er greitt með einhverri af eftirfarandi leiðum:
- Starfskraftur heldur venjubundnum launum í fríinu
- Orlofsgreiðslum er safnað á sérstakan reikning
- Orlofið er greitt út meðfram launum — algengt í tímabundnum störfum
Mundu að þegar þú hættir í starfi áttu að fá greidd orlofslaun vegna ótekins orlofs
Desember- og orlofsuppbót
Desemberuppbót er greidd út í desember. Ef þú varst í vinnu fyrstu vikuna í desember eða ef þú hefur unnið í minnst 12 vikur samfleytt hjá sama atvinnurekanda, áttu rétt á desemberuppbót.
Orlofsuppbót er greidd út í júní. Ef þú ert í vinnu í lok apríl, byrjun maí EÐA ef þú hefur unnið hjá sama atvinnurekanda í 12 vikur samfleytt á orlofsárinu, áttu rétt á orlofsuppbót.
Áunna desemberuppbót á að greiða út við starfslok
Veikindaréttur
Veikindi og slys
Ef þú veikist eða slasast og kemst ekki í vinnu vegna veikindanna áttu rétt á að vera heima. Íslensk lög tryggja að lágmarki tvo veikindadaga fyrir hvern unninn mánuð. Veikindi þarf að tilkynna til launagreiðanda, að öðrum kosti gætirðu misst rétt til launa í veikindaleyfinu.
Slys í vinnu
Ef þú slasast við vinnu eða á leið til eða frá vinnu áttu slysarétt auk hefðbundins veikindaréttar, í formi dagvinnulauna í allt að þrjá mánuði. Mundu að tala við stéttarfélagið þitt ef þú slasast við vinnu.
Mundu að tala við stéttarfélagið þitt ef þú slasastvið vinnu
Veikindi barna
Í kjarasamningum er launafólki tryggður réttur til fjarvista vegna veikinda barna, í allt að tvo daga fyrir hvern unninn mánuð, án þess að dagvinna eða álagsgreiðslur skerðist. Eftir sex mánuði í starfi er þessi réttur 12 dagar á hverju 12 mánaða tímabili.
Mundu að tilkynna launagreiðanda ef þú þarft að vera heima vegna veikinda barns.
Ráðningarsamningur
Það er mikilvægt að fá skriflegan ráðningarsamning við upphaf vinnu.
Í ráðningarsamningi ættu eftirfarandi atriði að koma fram:
- nafn þitt og atvinnurekanda
- vinnustaður
- stutt starfslýsing
- fyrsti starfsdagur
- lengd ráðningar sé hún tímabundin
- mánaðar- eða tímalaun
- lengd vinnudags
- lífeyrissjóður
- tilvísun í kjarasamning
Mundu að semja um starfsskilyrði með skriflegum hætti, bæði þegar þú ræður þig í starf en líka þegar gerðar eru breytingar á starfskjörum þínum
Tímabundin eða ótímabundin ráðning
Ráðningarsamningar geta verið annað hvort tímabundnir, til dæmis frá 1. júlí til 1. september eða ótímabundnir, það er án lokadags ráðningar.
Sé ekki tekið fram í ráðningarsamningi að hann sé tímabundinn er litið svo á að hann sé ótímabundinn. Í því tilfelli áttu rétt á uppsagnarfresti samkvæmt kjarasamningi.
Verktakar þurfa sjálfir að standa skil á staðgreiðslu skatta og tryggingagjaldi
Verktakar
Sumir atvinnurekendur hvetja starfsfólk sitt til að vinna störf sem verktakar. Ef atvinnurekandinn þinn hvetur þig til að undirrita verktökusamning skaltu huga vel að því hvaða afleiðingar það hefur fyrir þig.
Ef þú starfar sem verktaki ertu í raun að reka lítið fyrirtæki. Verktaki nýtur ekki sömu verndar og venjulegt launafólk.
Ef þú starfar sem verktaki ertu í raun að reka lítið fyrirtæki
veg
Verktakar þurfa líka að standa skil á skattgreiðslum og tryggingagjaldi.
Svört vinna
Stundum bjóða atvinnurekendur starfsfólki svarta vinnu sem felst þá í því að launagreiðslur eiga að vera hærri gegn því að launin séu ekki gefin upp til skatts. Þetta fyrirkomulag er ólöglegt og er ekki í hag starfsfólksins. Svört vinna tryggir fólki ekki margvísleg réttindi sem það annars hefði og sem munar um lendi einstaklingur í áföllum.
Það er mikilvægt að gera leigusamning við leigusala
Húsnæði á vegum atvinnurekanda
Það er mikilvægt að gera leigusamning vegna leiguhúsnæðis. Ef þú leigir herbergi eða íbúð af atvinnurekanda þínum er mjög mikilvægt að gera leigusamning aðskilinn frá ráðningarsamningi. Þú átt viss réttindi sem leigjandi hvort sem þú heldur starfinu eða ekki. Þú átt rétt á uppsagnarfresti, almennt 3 mánuðum fyrir herbergi og 6 mánuðum fyrir íbúð.
Það er brot á íslenskum lögum og réttindum verkafólks að láta sjálfboðaliða ganga í störf
Sjálfboðastarf
Það er brot á íslenskum lögum og réttindum vinnandi fólks að láta sjálfboðaliða ganga í störf sem annars væru launuð. Á Íslandi er sjálfboðavinna einungis leyfð í góðgerðarstarfsemi og menningar- eða mannúðarstarfi. Ráðningarsamningar sem segja til um lakari kjör heldur en kjarasamningar veita eru ekki gildir.
Uppsögn
Ef þú vilt segja upp störfum eða ef launagreiðandi vill segja þér upp þarf að gera það með formlegri uppsögn. Í kjarasamningum kemur fram hver uppsagnarfrestur á að vera.
Ef þú ætlar að segja upp starfi þínu ber þér að gera það skriflega og miðast uppsagnarfrestur við næstu mánaðarmót. Þú þarft að vinna uppsagnarfrestinn og heldur öllum réttindum á uppsagnarfresti eins og hver annar starfskraftur.
Launagreiðandi tekur stundum þá ákvörðun þegar hann segir starfsmanni upp störfum að starfsmaðurinn þurfi ekki að vinna út uppsagnarfrestinn. Launagreiðanda er þetta heimilt en þá verður hann að greiða starfsmanninum laun út uppsagnarfrestinn. Aðrar tekjur á uppsagnarfrestinum geta dregist frá þeim launum.
Mundu að fá staðfest skriflega vilji launagreiðandi ekki að þú vinnir störf þín út uppsagnarfrestinn.
Ef þér hefur verið sagt upp störfum og þú hefur ekki ennþá fundið annað starf skaltu skrá þig á atvinnuleysisskrá hjá Vinnumálastofnun til að öðlast rétt á atvinnuleysisbótum.
Þú getur fengið nánari upplýsingar hjá stéttarfélaginu þínu.
Ef þú eða einhver sem þú þekkir sætir illri meðferð í vinnunni skaltu hafa samband við okkur gegnum eyðublaðið okkar
Vinnuréttur
Nánari upplýsingar um vinnuréttindi má sjá á Vinnuréttarvef ASÍ.